Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1584  —  520. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Rögnu Sigurðardóttur um tæknilausnir í heilbrigðisþjónustu.


     1.      Telur ráðherra að eitthvað í lagaumhverfinu standi í vegi fyrir stafrænni framþróun í heilbrigðiskerfinu? Ef svo er, hvað?
    Lögin standa ekki í vegi fyrir stafrænni framþróun en í gildandi löggjöf er lítið fjallað um stafræna heilbrigðisþjónustu. Unnið er að því í ráðuneytinu að styrkja og skýra lagaumgjörðina, eins og fram kemur í svari við næsta tölulið.

     2.      Hvaða úrbætur á lögum telur ráðherra að ráðast þurfi í til þess að styðja við stafrænar lausnir og veita svigrúm til frekari þróunar og nýsköpunar á þessu sviði?
    Í núgildandi löggjöf á heilbrigðissviði er hvergi fjallað um fjarheilbrigðisþjónustu sem þó er ört vaxandi hluti almennrar heilbrigðisþjónustu. Tryggja þarf skýran lagagrundvöll fyrir veitingu og framkvæmd fjarheilbrigðisþjónustu, með gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga að leiðarljósi.
    Ráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Markmiðið er að skýra og samræma hugtakanotkun um fjarheilbrigðisþjónustu og mismunandi þætti hennar, til að stuðla að sameiginlegum skilningi á eðli, eiginleikum og nýtingarmöguleikum. Í frumvarpinu er tilgreint að sömu kröfur séu gerðar til fjarheilbrigðisþjónustu og gerðar eru almennt til samskipta heilbrigðisstarfsmanna og sjúklinga, þ.e. að fyllsta öryggis sé gætt við skráningu, meðferð og vistun gagna sem oft innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar.
    Ráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009, og lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru liður í undirbúningi íslenska ríkisins vegna þátttöku í víðtækri samvinnu ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu á sviði stafrænnar heilbrigðisþjónustu í Evrópu fyrir einstaklinga sem þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu í öðru landi EES en þeir búa í.
    Ráðherra hefur jafnframt lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009, um umsýsluumboð. Frumvarpið felur í sér heimild til handa sérfræðilæknum til að veita þriðja aðila umsýsluumboð fyrir hönd einstaklings 16 ára og eldri sem er ófær um að veita slíkt umboð sjálfur. Einnig felur frumvarpið í sér heimild til handa einstaklingum 16 ára og eldri til að óska eftir því við sérfræðilækni að hann skrái rafrænt umsýsluumboð fyrir þeirra hönd. Er frumvarpinu ætlað að stuðla að því að fatlað fólk fái þann stuðning sem það kann að þarfnast til að nálgast upplýsingar og nota grunnaðgerðir stafrænna heilbrigðisgátta sem í felst mikið hagræði.
    Í ljósi örrar tækniþróunar má gera ráð fyrir að ráðast þurfi í frekari lagabreytingar á komandi árum til að tryggja að löggjöfin haldi í við þær breytingar sem fyrirsjáanlegar eru. Það á ekki síst við um tækni sem nýtir gervigreind og er sú umræða hafin í stýrihópi ráðuneytisins um þróun og stefnumótun um stafrænar lausnir.
    Efla má stafræna þjónustu og nýsköpun með ýmsum öðrum hætti en lagasetningu. Í ráðuneytinu er nú unnið að endurskoðun stefnu um stafræna heilbrigðisþjónustu, sem hefur að meginmarkmiði að tryggja þróun og notkun á stafrænni tækni til að bæta þjónustu og efla notkun og miðlun upplýsinga í þágu heilbrigðis þjóðarinnar.
    Fyrrnefndur stýrihópur um þróun og stefnumótun um stafrænar lausnir hefur það hlutverk að fylgja eftir og innleiða stafræna stefnu ráðuneytisins. Meðal helstu áherslna hópsins er samræming sjúkraskrárkerfa og innleiðing fjarheilbrigðisþjónustu. Samhliða þessum áherslum er unnið að samþættingu gagnagrunna og stefnt að samræmingu á notendaviðmóti sjúkraskrárkerfa.
    Mikil áhersla hefur verið lögð á innleiðingu á alþjóðlegum staðli fyrir miðlun upplýsinga í heilbrigðisþjónustu. Sú innleiðing eflir nýsköpun lausna sem byggjast á stöðluðu viðmóti fyrir innlendan og erlendan markað.

     3.      Hversu miklu fjármagni hefur hið opinbera varið í þróun og innleiðingu tæknilausna í heilbrigðismálum frá árinu 2017, sundurliðað eftir árum?
    Stofnanir heilbrigðisráðuneytis sjá að mestu leyti um þróun og innleiðingu stafrænna og upplýsingatæknilausna í rekstri sínum sem eru ekki sérstaklega skilgreindar í fjárheimildum.
Ráðuneytið veitir árlega styrki til gæða- og nýsköpunarverkefna, en tilgangur styrkjanna er að stuðla að umbótum, nýbreytni og auknum gæðum í heilbrigðisþjónustu.
    Árið 2021 veitti ráðuneytið styrki til gæða- og nýsköpunarverkefna fyrir rúmar 28 millj. kr. til 13 styrkþega, með áherslu á verkefni sem nýtast heilbrigðisþjónustunni í kjölfar heimsfaraldurs.
    Árið 2022 veitti ráðuneytið styrki til gæða- og nýsköpunarverkefna fyrir tæpar 25 millj. kr. til 12 styrkþega, með áherslu á nýtingu nýrra lausna til að auka gæði þjónustu og hagkvæmni.
    Árið 2023 veitti ráðuneytið styrki til gæða- og nýsköpunarverkefna fyrir 55 millj. kr. til 18 verkefna sem öll hafa að markmiði að bæta þjónustu við notendur og stuðla að greiðara aðgengi með stafrænum lausnum.
    Eftirfarandi eru upplýsingar um sértæk framlög til innleiðingar tæknilausna á tímabilinu 2017–2021. Eins og áður er getið er gert ráð fyrir að stofnanir ráðuneytisins nýti fjármuni af föstum rekstrarframlögum sínum til þróunar og innleiðingar stafrænna upplýsingatæknilausna, svo að þessir fjármunir koma þeim fjármunum til viðbótar.
     *      2017 voru samtals 55 millj. kr. settar, til frambúðar, í fjarheilbrigðisþjónustu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og embættis landlæknis.
     *      2018 voru samtals 285 millj. kr. settar, til frambúðar, í rafræna sjúkraskrá hjá embætti landlæknis og klínískan lyfjagrunn Lyfjastofnunar.
     *      2021 voru settar samtals 580 millj. kr. einskiptis í velferðar- og heilbrigðistæknilausnir hjá heilbrigðisstofnunum og 30 millj. kr. til netspjalls Heilsuveru hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
    Heilbrigðisstofnanir fengu framlög af tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, tæpar 200 millj. kr., sem varið var til eftirtalinna verkefna:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum stofnana sinna um hve háu hlutfalli af heildarfjárveitingum sínum þær hefðu varið til þróunar og innleiðingar á tæknilausnum frá árinu 2017. Eins og sjá má í eftirfarandi töflu hafa stofnanir undir heilbrigðisráðuneyti sett um 5,5 milljarða kr. (miðað við verðlag hvers árs) í málaflokkinn frá árinu 2017.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Ekki bárust svör frá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands né Sjúkrahúsinu á Akureyri. Geislavarnir ríkisins, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sögðu þetta óverulegan þátt í þeirra rekstri.
    Tölur Landspítala taka einungis til þróunar og innleiðingar sem greidd er af fjárfestingarlið stofnunarinnar. Spítalinn áætlar að ár hvert fari um 15% af öllu rekstrarfé hans til upplýsingatæknimála vegna þróunarkostnaðar, sem nemur u.þ.b. 200 millj. kr. á ári til viðbótar.

     4.      Hvert er hlutfall framlagsins af vergri landsframleiðslu? Óskað er eftir samanburði við önnur Norðurlönd.
    Á því tímabili sem er til umfjöllunar er hlutfall heilbrigðisstofnana til þróunar og innleiðingar stafrænna lausna, auk sértækra framlaga heilbrigðisráðuneytisins og styrkja frá Stafrænu Íslandi og annars staðar úr kerfinu, um 0,03% af vergri landsframleiðslu. Samanburður við önnur Norðurlönd er ekki fyrir hendi.
    Samkvæmt samantekt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er hlutfall framlagsins 0,2% af vergri landsframleiðslu á Íslandi en þar má gera ráð fyrir að fjárfesting í einkageiranum sé meðtalin. Samkvæmt samantektinni er meðaltal Evrópuþjóðanna 0,03%. Norðurlandaþjóðirnar eru ekki í þessum tölum, að undanskildu Íslandi og Danmörku.

     5.      Hvert er hlutfall framlagsins af heildarfjármagni sem fer í rekstur heilbrigðisþjónustu? Óskað er eftir samanburði við önnur Norðurlönd.
    Hlutfallið nemur á bilinu 0,1–0,3% af heildarframlögum til reksturs heilbrigðisþjónustu samkvæmt fjárlögum. Samanburður við önnur Norðurlönd liggur ekki fyrir.

     6.      Hvert hefur fjármagnið sem hið opinbera hefur varið í þróun og innleiðingu tæknilausna í heilbrigðismálum runnið frá árinu 2017? Óskað er eftir samanburði við önnur Norðurlönd.
    Skilgreind framlög ráðuneytisins til þessa málaflokks hafa einkum verið til þróunar og viðhalds rafrænnar sjúkraskrár, þróunar netspjalls Heilsuveru, þróunar klínísks lyfjagrunns hjá Lyfjastofnun, fjarheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og velferðar- og heilbrigðistæknilausna hjá heilbrigðisstofnunum.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar sem gera samanburð mögulegan við aðrar Norðurlandaþjóðirnar.

     7.      Hversu stórt hlutfall fjármagnsins hefur verið veitt til embættis landlæknis, Landspítala og annarra stofnana eða fyrirtækja? Óskað er eftir samanburði við önnur Norðurlönd.
    Sjá svar við 3. og 4. tölul. fyrirspurnarinnar.